Læknisheimsókn.

Ég fór og hitti lækni stráksins fyrir 2.vikum og við vitum varla hvað er hægt að gera. Við erum bæði hrædd við það hvernig hann tekst á við næstu mánuði. Það var ákveðið að taka út lyf og setja annað í staðin sem á að minnka með kækina og skapsveiflurnar.

Og þá er bara að vona að það hjálpi eitthvað til:)


Uppákoma.....

Ég lenti í leiðinlegri uppákomu með strákinn á föstudaginn. Hann kom í bæinn og ég sótti hann. Hann var búinn að mæla sér mót við einhvern strák og ég vildi ekki bíða. Hann brjálaðist og gargaði og sparkaði ruslatunnu langa leið. Ég sagði honum að ég ætlaði að fara og hann réði hvort að hann kæmi með. Hann stóð fyrir utan bílinn og allt í einu fór hann að garga á tvo menn "hvað eruð þið að horfa á mig" svo rauk hann og réðist að öðrum manninum og ég á eftir honum. Ég náði að stoppa hann og fá hann með mér útí bíl og hann gerði sér lítið fyrir og hrækti á annan manninn á leiðinni út. Guð minn góður hvað mér fannst þetta erfitt, ég var farin að skjálfa. Mennirnir eltu okkur og kölluðu á eftir mér að ég ætti að fara með strákinn til geðlæknis hann væri greinilega eitthvað GEÐVEIKUR..... Hmmmmm jesú minn hvað ég varð reið, það kom allur tilfinningaskalinn. Ég gjörsamlega missti mig og argaði á mennina á móti að já hann væri búinn að vera á geðdeild og hefði verið útskrifaður og ekki af því að við hefðum viljað það og ef þeir hefðu eitthvað við það að segja þá gætu þeir haft samband við landspítalann...!! Svo strunsaði ég í burtu skjálfandi og langaði mest að fara bara að grenja.... En að sjálfsögðu leyfði ég mér það ekki.....

Lögregluskýrsla......

Strákurinn var borðaður í skýrslutöku vegna þjófnaðar í síðustu viku og ég sem foreldri var boðið að vera viðstatt. Ég er nokkrum sinnum búin að fara með honum í svona "skemmtilegheit" og þar sem hann er orðinn 15.ára, þá fer þetta á sakaskrá. Ég ákvað að gera honum það ekki til geðs að mæta og lét hann vita að ég væri hætt að standa í þessu með honum. Ef að hann ætlar að velja að vera þjófur, þá verður hann bara að díla við þetta sjálfur. Og hana nú.....

Ég á bara ekki til meiri orku..

Ekki það að sjálfsgagnrýnandinn sé búinn að láta mig í friði, hann er alveg búinn að láta mig heyra að ég sé nú ekki að standa mig nógu vel....

Æji þetta er alveg ferlega erfitt..................................


Þessi drengur.....!!!

Hann er nú alveg ótrúlegur þessi drengur sem ég á. Hann fór í skólann á mánudaginn og ég var búin að sannfæra hann um að hann gæti alveg grætt fleiri daga ef hann hagaði sér og hvað gerði hann........?? Hann hagaði sér mjög illa og reif stólpakjaft og ætlar sko ekki að vera í þessum helv.... skóla. Einmitt, þetta var sem sagt allur áhuginn sem hann hafði fyrir skólanum, en AUÐVITAÐ var hann ekkert með áhuga á að vera í skólanum, hann VARÐ bara að hafa eitthvað til að rífast yfir....

............................ALGJÖRLEGA GEÐVEIKT.................................


Skóli:)

Eins og ég var búin að segja, þá bilaði síminn hjá stráknum og hann gat þá ekki hringt í tíma og ótíma og þá fór hann að senda sms úr tölvunni. En nú er tölvan eitthvað biluð og þá getur hann hvorki hringt né sent sms og það er bara mikill LÉTTIR..!!!

Strákurinn hringdi áðan og hann fær að fara í skólann 2 daga í viku. Hann var ekki sáttur við að fá bara 2 daga, en ég reyndi að fá hann til að gleðjast yfir þessu, því að 2 dagar eru betri en enginn og svo ef vel gengur, þá skilst mér að hann gæti unnið sér inn fleiri daga:) Maður verður að reyna að leita að því jákvæða, þó það sé oft erfitt, frekar en að horfa bara á það neikvæða...


Held að ég sé að missa vitið....

Ó guð minn góður hvað mér líður illa. Strákurinn er alveg að missa vitið og ég með honum. Ég þarf svo að geta lokað á tilfinningarnar sem ég sveiflast í þegar hann er að stjórnast með tilfinningarnar mínar, en það er svo erfitt að ég efast um að ég geti það.....

Nú er hann símalaus og getur ekki verið að hringja en hann deyr ekki ráðalaus. Nú sendir hann sms á netinu. Endalausar hótanir.

Ég finn bara hvernig ég hverf inn í mig og lokast og fer bara í sorg og vanlíðan. Mér finnst ég svo vanmáttug. Mér finnst ég eiga að geta gert eitthvað til að stráknum líði betur og brýt mig niður fyrir að geta ekki gert neitt.

Ég er bara með hnút í maganum og reyni að halda haus útávið........


Mamma komin.....

Æji það er svo gott að vera búin að fá mömmu sína, það er alveg sama hversu gamall maður er, alltaf er mamman best:)

Og þetta með mömmur, það notar strákurinn alveg óspart á mig. Hann er aftur byrjaður á hringingum og finnur alltaf eitthvað til að rífast yfir. Hann hamast á sektarkenndinni hjá mér. Mömmur eiga að .......... gera allt fyrir börnin sín og það nýjasta var að hann nennti ekki að tala við mig fyrr en ég væri búin að þroskast....!! Það jaðraði við að vera fyndið.

Þetta tekur svo á að ég er alveg ótrúlega döpur og finnst þetta svo erfitt...


Helgin......

Strákurinn kom heim um helgina og við ákváðum að fara í heimsókn útá land. Hann var voða spenntur að koma með og okkur fannst gott að fara að heiman til að reyna að brjóta upp mynstið. Það gekk alveg rosalega vel NEMA að hann fékk eitt vægt brjálæðiskast. Eða það er að segja okkur heimilisfólkinu fannst það vægt en fólkið sem við vorum hjá fékk hálfgert sjokk og við vorum spurðar hvort þetta væri búið að vera svona í þessa mánuði sem hann var heima.... þegar við sögðum að við hefðum örugglega ekki staðið upp úr sófanum ef við hefðum verið heima, því þetta væri bara vægt, fór bara hakan niðrí gólf. Við erum orðin ALLTOF vön þessum látum.

Ég verð reyndar alveg ofboðslega döpur eftir brjálæðisköstin og það er eins og öll orkan sem ég á sé sogin úr mér.

Strákurinn er með svo mikinn kvíða að það er sko ekki hægt að hann sé svona ræfillinn. Það er bara spurning hvað er hægt að gera til að hjálpa honum. Ég er að fara að hitta lækninn hans á morgun og ræða þetta við hann. Vonandi kemur eitthvað útúr því:)


Skóli...?

Strákurinn er búinn að vera svo ósáttur síðan það var ákveðið að hann færi ekki í skólann og eins og ég hef sagt hringir hann látlaust til að rífast yfir einhverju....

Um dagin vildi hann fá að tala við barnavernd um það hvernig honum liði og mér fannst það bara gott mál og hafði samband við okkar fulltrúa og bað hana að hringja í strákinn. Hún gerði það og hann talaði aðarlega um það að hann væri svo ósáttur af því að hann færi ekki í skóla eins og var búið að segja og hann væri alltaf búinn að vera í skóla og hann vildi fá að sanna sig...!! Hún féllst á að hafa samband við skólann og hún gerði það. Nú erum við að bíða eftir svari frá skólanum. Og viti menn, hann er ekkert búinn að hringja síðan og það er enginn smá léttir að hafa ekki þessi riflildi yfir sér alla daga.. ÚFF


Argggggg...........

Ég er alveg að verða brjáluð. Strákurinn hringir stöðugt með eitthvað til að rífast yfir. Ef að eitthvað málefni verður útkljáð, þá er bara næsta fundið. Stundum spyr ég mig hvort sé auðveldara að díla við hann hér heima eða í gegnum símann. Ég veit að þetta er auðveldara, ef ég hugsa það vel:) en þessi símtöl taka alla orkuna frá mér.

Hann er gjörsamlega að kafna úr stjórnsemi...!!

Mikið væri ég til í að vera bara björn og geta lagst í hýði..... Það yrði dásamlegt:)


Léttir...

Strákurinn er búinn að vera að hringja daglega og jafnvel oft á dag og þá er alltaf eitthvað sem hann er ósáttur við. Nema í gær og í dag, þá er hann bara búinn að vera kátur og guðminngóður, þvílíkur léttir. Ég finn bara axlirnar síga:)

Ég finn að hann er mjög sáttur við fólkið sem hann er hjá og það er voða gott. Hann er alveg að róast með skólamálið og vonandi verður hann bara viljugur fyrir heimakennslu, því að ég veit að það nýtist honum miklu betur.

Það kom í heimsókn til okkar í dag einhverfuráðgjafi og það er svo gaman að hlusta á hana, því að hún er uppfull að flottum sögum sem gaman er að hlusta á, svo er hún líka með svo þægilega rödd...... Svoldið einhverft :)


Mamma:)

Ég er búin að vera svo andlaus að ég hef bara ekki haft mig í það að skrifa.

En núna var ég að fá svo góðar fréttir. Mamma sem býr erlendis ætlar að koma heim og létta undir á heimilinu. Ég get varla beðið. Ég er svo hryllilega þreytt að ég hef mig bara ekki í að gera neitt.

Ég ætlaði að nota síðustu viku í að hvíla mig og gera ekkert, en þá var ég beðin um að vinna og auðvitað sagði ég já, það er voða gott að fara út að vinna og hugsa bara um vinnuna:) Í raun og veru er hvíld í því. Það er ekki hægt að hugsa eins mikið.

Ég er alltaf svo kvíðin yfir að eitthvað komi uppá, annaðhvort að strákurinn farið í mótþróa og strjúki eða að fólkið gefist upp. Ég er með hnút í maganum alla daga, allan daginn... Ekki gott.


Enn ósáttur....

Strákurinn er ennþá ósáttur að fá ekki að fara í skóla eins og önnur börn. Ég er búin að fá að vita af hverju hann fer ekki í skóla.... Það var nefnilega þannig að það var sótt um skólavist fyrir hann og þeim sagt að hann væri með greiningar... OK EN.... Það var ekki búið að segja skólanum frá ofbeldishegðuninni... Einmitt. Og fólkið í sveitinni fékk líka að heyra ýmislegt á skólafundinum sem þau voru ekki búin að heyra áður.... Frábærlega unnið mál... EÐA....EKKI....

Ég yrði brjáluð ef að ég væri beðin um að taka svona mál að mér og mér yrði ekki sagt frá því að barnið væri með svona mikla ofbeldishegðun. Kæmi bara obbósí, ég gleymdi bara að segja.......

Ég las grein í helgarblaði DV. Þar sagði yfirlæknirinn á B.U.G.L að foreldrar væru með of miklar væntingar.... Hmmmm.... Auðvitað er ég með væntingar til spitalans, þegar barnið mitt er svona veikt. En ekki hvað..!!! Ég ætla aftur að koma með líkinguna með líkamleg eða andleg veikindi. Ef að barnið mitt væri t.d með krabamein, myndi ég ekki vera með væntingar til læknanna um að hjálpa barninu mínu..?? JÚ...!! Og ég yrði ekki send með barnið heim.

Af hverju er ekki andlega veiku börnunum hjálpað..???

Þessa sögu heyrði ég í dag....

Læknirinn hringdi í pípara á aðfangadag og bað hann að koma, því að vaskurinn væri algjörlega stíflaður. Píparinn kom og skoðaði vaskinn, spurði svo lækninn hvort að hann ætti panódíl, já sagði læknirinn. Píparinn tók verkjatöfluna, henti henni ofaní vaskinn og sagði svo. Hringdu bara aftur ef að þetta lagast ekki..


Hringingar........

Strákurinn hringir annaðhvort alveg þvílíkt hress og allt bara gott eða allt ömurlegt og með þvílíka paranoju að hann er viss um að allir séu að ljúga að honum.....

Ég er alve viss um það að hann er OF veikur til að höndla þetta ástand....

Af hverju fær barnið mitt ekki læknishjálp....???

Er það af því að yfirlæknirinn á B.U.G.L er búinn að ákveða að það sé ekkert hægt að gera fyrir hann....

Er ekki alltaf hægt að reyna.....?


Depurð....

Ég er alveg að verða brjáluð á þessum endalausa höfuðverk sem vaknar og sofnar með mér.

Strákurinn hringdi í gærkvöldi og það símtal endaði á því að hann skellti á mig, af því að ég gat ekki komið með réttu svörin eða gat ekki reddað öllu í einni svipan..... Hann er alveg brjálaður yfir því að fá ekki að fara í skólann. Hann vill ekki fá heimakennslu eins og að hann væri eitthvað fatlaður... Honum finnst ekkert vera að sér..!! Hmmm þessar hugsanir eltu mig inn í svefninn og ég svaf ekki vel og vaknaði bara döpur......

Nú er heilinn minn alveg á yfirsnúning að hugsa um hvað ég get gert til að hjálpa honum að líða betur.... Kannski get ég ekkert gert, en mér finnst að ég sem móðir hans eigi að geta ALLT.....


Smá babb í bátinn....

Það var fundur í skólanum í dag og á meðan var stráknum sýndur skólinn. Á leiðinni heim spurði hann hvenær hann byrjaði í skólanum.... Það var ákveðið að það væri bara best að hann fengi heimakennslu. Hann varð rosa sár og fannst þetta ósanngjarnt.

Hann hringdi í mig grátandi. Það er voða erfitt fyrir hann að það sé verið að breyta því sem áður var sagt. Ég reyndi að útskýra fyrir honum af hverju, en þegar hann er reiður þá hlustar hann ekki.

Nú þarf að sjá til hvað hann er viljugur að gera. Ég sagði honum að ef að hann stendur sig vel að læra heima, þá væri alveg örugglega hægt að fá að fara eitthvað í skólann. Nei hann hélt ekki, það er ekkert verið að hugsa um hvað er honum fyrir bestu.. Ok, það er bara best að bíða og láta hann jafna sig.


Æji hvað það var gott að heyra.....

Jæja ég var að tala við strákinn áðan og hann svona agalega kátur. Hann var algjörlega búinn að gleyma einhverfuráðgjafanum og sagði mér að hann væri að fara að skoða skólann á morgun og er bara spenntur fyrir því.

Ég var ekkert smá glöð að heyra í honum og þá sérstaklega af því að það var svo gott í honum hljóðið. Ég talaði líka við manninn á bænum og hann sagði að hann væri bara búinn að vera voða fínn. Snilld.

Ég er enn svo spennt eftir öll átökin að það væri örugglega hægt að nýta mig í rafmagn fyrir heilt íðúðarhverfi.... Hmmm kannski góð hugmynd til að vinna sér inn pening fyrir öllum skemmdunum:)

Það er svo eins gott að halda áfram að gera létt grín af ástandinu, svo að ég tapi ekki síðustu dropunum af geðheilsunni.....


Varnarmúr..........

Ég er búin að vera svo lengi í basli með veikindi stráksins að ég er komin með hættulega háan varnarmúr, að ég held. Það kom blaðakona hér í gær og tók við mig viðtal og mér fannst það ekkert mál, var samt pínu stressuð. Svo hringdi hún í mig til að lesa fyrir mig greinina áður en hún fór í prentun og ég hlustaði og táraðist. Mér fannst þessi saga alveg hrikalega sorgleg og ég fann mikið til með móður þessa drengs.....

Einmitt, múrinn er orðin svo hár að ég er farin að skilja mig frá mér.... Hljómar nú ekki vel.

Eitt finnst mér svoldið furðulegt. Barnavernd hringdi síðasta föstudag til að segja að hann gæti farið í sveitina og svo er bara ekkert spáð meira í það. Það er ekkert verið að spá í rústirnar sem eru eftir á heimilinu. Og þá er ég ekki að tala um veraldlegu hlutina. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð.


Snúllan....

Stelpan kom heim úr skólanum í dag, ferlega pirruð og hálf grátandi. Við reyndum að tala við hana og fá að vita hvað væri eiginlega að. Hún fór strunsandi inn í herbergi og skellti á eftir sér. Kom svo fram grátandi og var viss um að hún væri búin að breytast í bróður sinn. OK.... Málið var að hún fékk ekki frið í skólanum í dag, allir að stríða henni fyrir að eiga svona bróður..... Sem væri að segja allskonar hluti og væri búinn að vera með hníf..Ræfilstuskan litla.... Við spurðum hana hvað við gætum gert og urðum ásáttar um það að við mundum tala við kennarann hennar og fá hana til að tala við krakkana.

Ég er svo orkulaus að ég hef mig varla í að gera neitt. Er bara alveg að leka niður og hlakka svo til að það komi kvöld og ég geti bara farið að sofa....


Símtal...

Strákurinn hringdi í gærkvöldi, ekki sáttur. Það kom einhverfuráðgjafi í sveitina sem á að hjálpa honum í skólanum og hann var alveg brjálaður og rauk út og hafði ekkert við hana að tala. Strákurinn vill ekki vera einhverfur lengur og vill bara fá nýja greiningu. Hann á að byrja í skólanum á mánudaginn og hann vill bara vera eins og allir hinir, ekki fá öðruvísi bækur og ekki skera sig út úr. Við sögðum honum að það væri gott mál, hann gæti það alveg ef að hann vildi, hann þyrfti bara að leggja sig meira fram en hinir, af því að hann er ekki á sama stað námslega séð. Hann vill að konan í sveitinni hjálpi sér að læra"það er stórt skref" hún er kennaramenntuð og getur það örugglega. Mér finnst það snilld:)

Hann er alveg búinn að sannfæra sjálfann sig um það að hann sé ekkert einhverfur, hefði bara fengið þessa greiningu af því að hann hefði bara haft áhuga á snúningsdótinu. Oft er ekki hægt að útskýra fyrir honum hlutina en stundum fer hann í samtalsgír og þá meðtekur hann það sem við segjum og það var svoleiðis í gær og það er voða gott þegar maður finnur að hann skilur betur það sem er verið að útskýra fyrir honum.

Hann vill að skólinn fái ekkert að vita um hann, þau eiga bara að kynnast honum. Hann vill bara vera eins og allir aðrir. Ok, það er gott að hann vilji það, en þá verði hann að haga sér eins og flestir aðrir. Það þýðir ekkert að grýta hlutum í fólk og kalla alla fávita ef maður er ekki sáttur, það verður að tala.

Við urðum ásátt um það að það þurftu ekki allir í skólanum að vita að hann væri einhverfur, hann fengi alveg að sanna sig. Og við ætlum að tala við konuna í sveitinni um að hjálpa honum að læra, svo að hann geti verið eins og hinir.

Já það er ekki auðvelt að vera með allar þessar greiningar og eiga við margar takmarkanir að stríða og finnast ekkert vera að sér, bara allir aðrir sem bulla...!!!


Næsta síða »

Höfundur

móðir
móðir
Móðir í erfiðleikum

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband