Mánudagur, 14. febrúar 2011
Eirðarlaus...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. febrúar 2011
Gærdagurinn...
Ég sagði stráknum á föstudag að allt væri tilbúið og hann gæti farið á sunnudag í sveitina. Hann fór strax að pakka niður og þegar hann vaknaði á laugardag, var hann svo stressaður og algjörlega að fara á límingunum. Rétt eftir hádegi spurði hann mig hvort ég gæti ekki bara hringt í fólkið og spurt hvort hann mætti ekki bara koma í dag... Hann sagði: ÉG GET BARA EKKI BEÐIÐ LENGUR. Hmmm.. Ég ákvað að hringja og það var bara ekkert mál. Ég held að við höfum lagt af stað korteri seinna, það var varla að hann gæfi mér tíma til að fara í skóna....
Ég skildi hann mjög vel, ég veit að það er ekki gott að vita ekki hvert og hvenær maður á að fara eitthvert... Að vera í svona óvissu er ekki gott og hvað þá í 3.1/2 mánuð.
Við lögðum af stað og strákurinn sló inn bæinn í gps tækið og hann var með það í fanginu alla leiðina og taldi niður mínúturnar þangað til við kæmum á staðinn.
Ég var þvílíkt stressuð alla leiðina, hvernig mundi okkur lítast á fólkið... En það var alveg óþarfi, því að okkur fannst þau með mjög góða nærveru og hann var bara mjög sáttur.
Hann vildi fljótlega að ég færi, því að það átti eftir að vinna dagsverkin og hann gat ekki beðið eftir því að fara í útihúsin að skoða og vinna:) Hann gjörsamlega elskar að vinna sveitaverk og að moka skít er hans uppáhald. Það minnir mig á þegar Siggi Sigurjóns í Dalalíf var að moka skít og sagði I love it... Það gæti verið minn strákur:)
Svo kom ég heim og var eitthvað eirðarlaus. Prjónaði og horði á sjónvarpið. Var stöðugt með hugan við það hvernig hann hefði það, hvort það væri allt í lagi. Hvernig honum liði. Hvað hann væri að gera. Æji hvað mér fannst tómlegt að hann væri ekki heima.
Þá er bara að harka af sér og hugsa hvað sé honum fyrir bestu.. ÚFF
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. febrúar 2011
Jáhá.... sunnudagur
Það var hringt í mig frá barnavernd í dag og viti menn, ALLIR pappírar tilbúnir og við getum farið á sunnudaginn. Mér líður hálf furðulega og trúi nú varla að það sé komið að þessu..
Auðvitað ég ég bara voða ánægð yfir því að þetta sé loksins að ganga og strákurinn líka. Hann er nú samt voða stressaður og með athyglisbrest dauðans og MJÖG stuttur þráður í honum. En það er samt voða mikill léttir fyrir hann að vita loksins dagsetningu. Ég held að hann sé alveg farinn að plana sveitaverkin sem hann getur farið að sinna:) Þau eru nú heppin hjónin að fá svona duglegan vinnumann til sín. Hann hreinlega elskar að hafa nóg að gera og er sko ekki latur.
Stelpan er búin að vera í viðtölum og núna á að fara að auka þau svo að hún geti losað sig við sektarkenndina og vanlíðanina sem hún er að burðast með vegna bróður síns. Æji það verður voða gott fyrir hana að geta fengið meiri athygli og rólegheit.
Jii.... ég er svo stressuð, síminn hringdi og það fyrsta sem ég hugsaði var: er verið að breyta þessu, gengur það kannski ekki á sunnudaginn... Er eitthað að klikka. Nei það var bara einhverfuráðgjafinn að vita hvort það væri komið eitthvað svar:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 10. febrúar 2011
Kannski eitthvað að gerast...
Jæjæ, kannski er loksins eitthvað að gerast í okkar málum. Ég var alveg að missa kúlið yfir því að það væri ekki hringt í mig til baka frá barnavernd, þannig að ég sendi e-mail og viti menn, það var hringt í mig áðan og það er verið að vinna í pappírunum og kannski og vonandi verða þeir tilbúnir á morgun. Ef það verður, þá get ég farið með strákinn í sveitina um helgina.... Það verður hringt í mig á morgun og ég látin vita hvort það hafi tekist.
Ég er reyndar búin að heyra þessa setningu í 2.vikur, þannig að það kannski borgar sig ekki að vera of vongóður.
Orðið kannski er eitt það versta orð sem strákurinn minn heyrir og það má ekki nota það við hann. Ég held að ég sé búin að fá ógeð á þessu orði og kannski verður þetta orð bara BANNORÐ á okkar heimili í framtíðinni....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. febrúar 2011
Bara eitt ský á himni í dag.....
Jæja, dagurinn í dag var nú bara með besta móti. Strákurinn bara nokkuð líkur eðlilegum börnum og bara búinn að vera kurteis og blíður. Hann á það alveg til, en það er ekki búið að vera mikið um það síðustu mánuði.
Mágkonan slapp algjörlega við hamagang og læti og hrósaði bara drengnum. Ekki oft sem það er gert....!!
Það eina sem skyggði á þennan annars ágæta dag var að ég náði að mana mig í það að hringja í barnavernd og það voru tekin ÁRÍÐANDI skilaboð en ekki hringt til baka, frekar en í gær.
Ég veit satt að segja ekki alveg hvað ég á að gera, var að spá hvort að ég ætti að fara með strákinn með mér niðrá barnavernd, en er samt að hugsa hvort það gæti sett hann í ójafnvægi. Úff, erfið ákvörðun.
Ég fór í tvö viðtöl í dag sem hjálpa mér mikið, bæði í veikindum stráksins, því þær eru svo duglegar að segja mér hvað ég er búin að vera dugleg að berjast fyrir drenginn og svo eru þær líka að styrkja mig í mínum veikindum.
Held að það hjálpi mér líka að sjá það jákvæða sem er líka að gerast, ég verð bara að rýna svolítið vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. febrúar 2011
Nýtt vandamál.......
Jæjæ. Nú er ég að mana mig upp í að hringja í barnavernd og fá einhver svör. Ég skil ekki að það hafi ekki neinn hringt í gær, ég veit að ef að ég fengi bréf eins og ég sendi, þá mundi ég hringja eins og skot... Mér líður eins og ég sé með stórann stein í maganum og sé komin með einhverja pest. Ónæmiskerfið alveg að gefa sig.
Elsku duglega stelpan mín alveg búin á því og farin að bleyta rúmið á nóttinni. Spyr svo: Hvenær fer bróðir minn eiginlega í sveitina, ég vil bara að honum líði betur, vil ekkert losna við hann..... Ræfillinn með sektarkennd yfir því að vilja losna við bróður sinn...!!!
Strákurinn vaknaði sæmilega rólegur í morgun og er ekki enn búinn að arga á okkur. Kannski verður dagurinn í dag ágætur, þrátt fyrir liðsmannsleysi.
Ég þarf að fara í viðtal í dag vegna veikinda sem ég er að berjast við og mágkona mín ætlar að hætta sér inn á heimilið og passa drenginn. Úff, algjör hetja. Hún er sú eina í fjölskyldunni minni sem treystir sér í að passa hann..!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Geðvonska.....
Ég held að ég sé að tapa vitinu úr geðvonsku. Ég heyrði ekkert um það hvernig málið væri statt í dag. Ég bað fyrir skilaboð til yfirmanns barnaverndar í dag, að hún mundi hringja í mig.... Það var EKKI hringt......!!!!
Það var svo hringt í mig frá liðsmannafyrirtækinu seinnipartinn í dag og sá sem átti að koma á morgun er hættur. Hann treystir sér ekki til að vera með strákinn lengur.... Frábært, eða þannig.
Þannig að núna eru þrír liðsmenn búnir að gefast upp á stráknum og hættir. Þrjá getum við ekki nýtt vegna þess að strákurinn þolir þá ekki, annaðhvort úthúðar hann þeim og neitar að fara með þeim út eða stingur þá af og kemur heim.
Nú eru bara tveir eftir, annar getur bara verið 1x í viku í 4.tíma og hinn er erlendis...
Heilinn er alveg á yfirsnúning að hugsa hvað er hægt að gera. Er að spá hvort það virki eitthvað að fara með strákinn niðrá barnavernd og neita að fara fyrr en við fáum svör.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. febrúar 2011
Orðlaus......
Nú er ég algjörlega orðlaus. Eins og ég sagði í gær þá sendi ég frekar harðorðað bréf í gær. Hvaða svör hef ég fengið..... Bíddu við, já ég er búin að fá 1.email og það var EKKI frá barnavernd...... Og það hefur ENGINN hringt... Ég veit satt að segja ekki alveg hvað er í gangi.....
Kannski er það eina sem dugar að vera sjáanlegur, mér finnst það bara fáránlegt að þurfa að fara í fjölmiðla og vera "hálf" dónalegur og frekur til að þetta gangi hraðar. Það er alltaf eitthvað sem er eftir að gera. Mér finnst eins og þetta sé fyrsta málið sem barnavernd vinnur, því að það er alltaf, ÚPS það á eftir að gera..... eða ÚPS þið eigið að.....
Strákurinn er alveg að fara á límingunum yfir biðinni. Kvíðinn magnast með hverjum deginum. Það má orðið ekki tala við hann, það er allt áreiti og hann hreytir í mann í nánast hverri setningu. Hann er orðinn lystalítill og alltaf óglatt.
Hann spyr oft á dag hvort að barnaverndarfulltrúinn sé búin að hafa samband til að segja okkur hvenær hann getur farið. Og verður pirraðari í hvert skiptið sem ég segi nei......
Stelpan er farin að eiga erfiðara með að læra fyrir skólann, er kominn með svo mikinn kvíða að hún er bara alveg útá þekju...... Orðin vælin og allt ómögulegt...
Ég er orðin öll undirlögð af vöðvabólgu að ég sofna og vakna með höfuðverk. Ég er líka orðin lystalítil og stöðugt óglatt.
Ég veit orðið ekki hvernig við endum ef að biðin dregst mikið lengur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. febrúar 2011
Nú er ég gjörsamlega búin að fá nóg....!!!!!!!!!!!!
Ég var að tala við barnavernarfulltrúann og var að spyrja hvort það væri ekki örugglega búið að senda samninginn. NEI...... Hann er EKKI tilbúinn....
Á miðvikudaginn Í SÍÐUSTU VIKU þegar ég talaði við hana var samningurinn tilbúinn en lögfræðingar barnaverndar og barnaverndarstofu þurftu að hittast, þeir ætluðu að reyna að hittast á fimmtudag. Þannig að það þyrfti að senda samninginn í sveitina í ábyrgðarpósti til að þau gætu undirritað hann...
Núna neitar hún því að hafa sagt að samningurinn væri tilbúinn, segir að ég hafi bara heyrt það, af því það er það sem ég óskaði eftir að heyra.... EINMITT. Ég er ekki sú eina sem hún sagði þetta við. Til að vera viss um að ég væri ekki að rugla einhverju saman "það gæti svo sem alveg gerst,því þetta er búin að vera svo mikil hringavitleysa" hringdi ég í eina sem talaði við barnaverndarfulltrúann á föstudag. Barnaverndarfulltrúinn sagði líka við hana að samningurinn væri tilbúinn..!! Og núna ættu bara hjónin eftir að skrifa undir þá gæti drengurinn farið.
Við erum alveg að springa úr reiði yfir seinum vinnubrögðum og ég skrifaði e-mail og bað um svör, hvar þetta mál væri statt í ALVÖRUNNI. Ég sendi mailið á 3.hjá barnaverndarstofu, 3.hjá barnavernd, 3.einhverfuráðgjafa og prestinn góða:) bara svo að þetta færi á fleiri staði, en bara til þeirra sem að þessu máli vinna.
Það er bara spurning hvort að ég þyrfti að vera sjáanlegri og birta svo þetta e-mail opinberlega til að þessu sé flýtt. Ég er allavega ekki tilbúin til að bíða eftir að hann drepi sjálfann sig, okkur, eða einhvern saklausann sem verður bara ÓVART fyrir honum..!!!!!!!!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. febrúar 2011
Takk fyrir að gefa ykkur tíma til að lesa....
Ég sé að það eru heldur betur margir búnir að vera að lesa bloggið hjá mér. Kannski það rati til einhverra sem einhverju stjórna, hver veit. Allavega væri það óskandi:) Því ég er alveg á síðustu orkudropunum og finn að það er að hellast yfir mig vonleysi.
Ég vona að ég fari að fá einhver svör með úrræðið. Ég mundi samt helst vilja að strákurinn fengi hjálp við veikindunum áður en hann færi. Er mjög hrædd um að þetta fari allt til andsk..... ef að hann fer í því ástandi sem hann er í núna. En eins og ég hef sagt, þá er ekki að ræða það að hann fái hjálp frá B.U.G.L og mér finnst það voða sárt að ástandið þar sé svo slæmt að veikum börnum sé ekki hjálpað. Ég veit ekki hvort það er stjórnunin þar eða sparnaður. Örugglega bæði.
Enn og aftur TAKK
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 6. febrúar 2011
Það sem ég er búin að gera......
Ég sendi bréf á heilbrigðisráðherra og hann svaraði því EKKI.
Ég sendi landlækni bréf og hann svaraði en hann sagðist ekki geta skipt sér af innlögnum á B.U.G.L.
Ég sendi bréf á æðstu menn barnaverndarstofu.
Það var haft samband við umboðsmann barna og hann getur ekki beitt sér í stökum málum.
Það var haft samband við þingmenn og þeir ætluðu að koma þessu lengra.
Þetta var í nóvember og samt sitjum við enn heima og bíðum.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 6. febrúar 2011
Öryggi annara....?
Ég er mikið búin að vera að velta fyrir mér þessu nafni BARNAVERND... Mér finnst þetta nafn vísa til þess að þetta sé nefnd sem á að vernda börn. Í mínu tilviki verndar hún EKKI barnið mitt fyrir sjálfum sér, EKKI börnin á heimilinu og EKKI börnin í hverfinu eða bara fólk almennt, sem gæti orðið á vegi hans.
Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég hef litla stjórn á honum og er hrædd við hann. Liðsmennirnir sem eru allir af vilja gerðir til að hjálpa, geta litla stjórn haft á honum. Og hafa tveir af þeim gefist upp. Starfsfólk B.U.G.L réð ekki við hann. Sveitin sem hann var í gat ekki haft hann lengur vegna veikinda hans.
Hann er ekki farinn í næsta úrræði, sem er önnur sveit, þar sem eru hjón og bara venjulegt heimili og ég er strax komin með kvíða yfir því að þau gefist upp...
Hann er veikur og þarf hjálp, hann er alveg hættur að hafa áhuga á öllu, það sem hann hefur haft mest gaman af er að verða leiðinlegt. Hann er með kvíða yfir öllu, honum finnst allt mjög erfitt. Hann þarf að meira að segja að mana sig lengi áður en hann getur farið í sturtu. Honum finnst líf sitt ömurlegt og honum finnst hann ömurlegur. Hræðilegt...!!!
Hann er á lyfjum og læknarnir á B.U.G.L vilja ekki athuga hvort að hann sé búinn að mynda óþol eins og svo oft áður, þeir segja að það muni taka of langan tíma og svo sé hann líka á viðkvæmum aldri. Þeir geta ekki gefið honum lyf við kvíðanum, af því að það passar ekki með þeim lyfjum sem hann er að taka og það er of mikið vesen að breyta og ekki hægt að gera það með hann heima.
Hann er ekki í neinum vímuefnum, JÁ ég hef passað hann vel og það hefur kostað okkur mikið, vegna þess að hann hefur mikinn áhuga á öllu sem er hættulegt, vímuefnum, ofbeldi og þjófnaði. Ég er þakklát fyrir hvern dag sem við náum að halda honum frá þessu, því að ef hann fer í vímuefni ofaná allt það sem er að hjá honum, held ég að það geri útaf við hann.
Ég hef miklar áhyggjur af stráknum og er mest hrædd um að hann skaði sjálfan sig eða einhvern annan.
Ef einhver hefur verið í svona stöðu með barnið sitt, þá plís getið þið gefið mér ráð....!!!!!!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 5. febrúar 2011
Skólafundur
Á mánudag voru öll gögnin send til barnaverndarstofu. Þá þarf að búa til samning. Á meðan bíðum við. Mér var sagt að það yrði fundur í skólanum sem strákurinn á að fara í á fimmtudag og þá á samningurinn að vera tilbúinn, þannig að það verður hægt að fara með samninginn til undirskriftar til hjónanna í sveitinni. Ef samningurinn er í lagi og þau skrifa undir, þá gæti ég farið með strákinn á sunnudag. Barnaverndarfulltrúinn sagði við mig: ég vona að ég hafi munað eftir öllu sem á að vera í þessum samning, þessi kona er búin að vinna við þetta í áratugi og mér finnst að hún ætti að vera búin að vinna að nógu mörgum samningum til að hafa þetta rétt..!!
Ég hef ekki verið sátt við þessa konu og finnst hún ekki vinna nógu hratt og ekki skilja erfiðleikana sem við glímum við á hverjum degi, þó að hún vilji ekki fá hann á skrifstofuna til sín, af því að hún er hrædd við hann. Ég er búin að biðja um að fá annan félagsráðgjafa en það er bara sagt NEI.
Á miðvikudag sagði barnaverndarfulltrúin að samningurinn væri tilbúinn en... lögræðingar barnaverndar og barnaverndarstofu ættu eftir að hittast, þannig að hún gæti ekki tekið samninginn með sér á fimmtudeginum og þar að leiðandi gæti hann ekki farið næsta sunnudag. Kannski er ég bara frek, en mér finnst að lögfræðingarnir ættu að geta fundið tíma eða vinna lengur til að klára þetta.
Ég er svo gjörsamlega búin með orkuna.
Fimmtudagurinn kom og ég talaði við konuna í sveitinni og hún sagði mér að fundinum í skólanum hefði verið frestað.... Einmitt... Og það væri ekki búið að ákveða nýjann fund... Og þá lengist tíminn sem við þurfum að bíða..
Ég var búin að taka loforð af barnaverndarfulltrúanum að hafa samband við mig ef að eitthvað breyttist. Hún hafði ekki samband til að láta mig vita að fundinum hefði verið frestað...!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2011
Ég gleymdi að segja frá einu....
Ég gleymdi að segja frá einu. Þegar ég mætti hjá barnavernd og þær voru búnar að segja mér frá hnífnum og að hann hefði ógnað með honum, þá sögðu þær mér að þær væru búnar að hringja á Stuðla en það væri ekkert laust og að þeim þætti mjög erfitt að vera ekki með neinar lausnir á meðan við værum að bíða.
Hvernig er heilbrigðiskerfið hjá okkur íslendingum orðið, það er af sem áður var að við gátum verið stolt og ánægð að búa á Íslandi í þessu góða velferðarkerfi..!!
Strákurinn er búinn að grátbiðja um hjálp á B.U.G.L. Ég er margbúin að biðja um hjálp á B.U.G.L, barnavernd er margbúin að hringja og biðja um innlögn á B.U.G.L en það er bara neitað að taka við og hjálpa honum. Stuðlar er alltaf fullt, fyrir utan það að þeir eiga ekki að sinna börnum með geðröskun eða aðrar fatlanir..!!
Það á að vera til úrræði fyrir öll veik börn en það er EKKI. Ég get ekki leitað hjálpar á öðrum geðdeildum, af því það er bara til EIN geðdeild fyrir börn og unglinga.
Hverning á þetta að enda?? Ég veit að við erum ekki eina fjölskyldan sem stöndum í þessum sporum að eiga veikt barn sem enginn getur hjálpað og engin úrræði til, hvað ætla ráðamenn þjóðarinnar okkar að gera, Þetta á ekki að vera svona, það eiga allir rétt á hjálp og úrræðum alveg sama hvort um er að ræða andleg eða líkamleg veikindi....
Ef ég kæmi með barnið mitt á barnaspítala hringsins og hann yrði greindur með sjaldgæft og erfitt krabbamein sem mjög erfitt væri að meðhöndla og batahorfur væru litlar meðferðin löng og lyfin mjög DÝR.....
Það yrði ekki sagt við mig: Æji veistu að þetta bara er svo langsótt, þetta tekur svo langan tíma,lyfin eru dýr,og það er bara ekkert víst að hann myndi lifa þetta af hvort sem er.
Þetta er MJÖG erfitt krabbamein að eiga við! Svo við tölum nú ekki um að láta hann liggja inn á spítala svo mánuðum skiptir það kostar ríkið svo rosalegar upphæðir.
Nú svo er hann líka á svo viðkvæmum aldri !!!
NEI veistu við bara getum ekkert meira gert fyrst það er ekki pottþétt að þetta læknist farðu bara með hann heim og vonum bara það besta!!!! Prufaðu bara að gefa honum paratabs....
NEI það yrði allt gert til þess að bjarga og hjálpa barninu mínu alveg sama þó líkurnar á bata væru ekki miklar!! Það yrði ALLT reynt jafnvel þó að það eina sem þeir gætu gert væri að gera barninu lífið bærilegra......
En svona er það á B.U.G.L Stuttur innlagnatími og litlar sem engar úrlausnir.
Þetta er brotið kerfi og þetta þarf að laga strax!!!!
Nú bara bíðum við eftir því að hann komist í sveitina fárveikt barnið!!!!
Kannski verðum við heppinn og honum líður betur eins og B.U.G.L vill meina að verði raunin ,hann þurfi bara að komast í stabílt umhverfi!!!! "hann var í stabílu umhverfi áður en hann var lagður inn á B.U.G.L núna í byrjun október"
En ef hann verður ekki betri, ef hann heldur áfram að vera svona veikur og líða svona hræðilega, hvað þá???? Er eitthvað plan B...???
Ætla þeir þá kannski bara að senda hann aftur heim af því það er ekkert annað til eða það tekur marga mánuði að bíða eftir því að þeir finni eitthvað nýtt....
NEI maður spyr sig........
Bloggar | Breytt 4.2.2011 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2011
Barnavernd og lögregla.
Á mánudaginn síðasta fór strákurinn út. Hálftíma seinna kom hann heim. Hann var eitthvað skrýtinn en ég fattaði ekki hvað það væri.
Það var hringt í mig frá barnavernd og ég beðin um að koma STRAX. Mér fannst það skrýtið en bara fór. Þegar ég kom voru 2 fulltrúar barnaverndar sem fóru með mig inn á skrifstofu og fóru að spyrja mig hvort að hann væri aftur kominn með hnífinn frá pabba sínum... HAlló er ekki allt í lagi, auðvitað ekki..!! Þá var mér sagt að það hefði verið hringt í þær og þeim tilkynnt að strákurinn hefði verið að ógna einhverjum með hníf. Ég sagði þeim að ég gæti ekki ýmindað mér hvar hann hefði komist yfir hníf. Þær vildu að ég færi heim og mundi leita að hnífnum, þegar hann væri sofnaður. Ég sagði að ég vildi fá að fara heim og hugsa hvernig væri best að gera þetta og ráðfæra mig við vinkonu mína. Já ok,þær voru sáttar við það. Ég fór heim og okkur fannst báðum að það væri vítavert kæruleysi að láta daginn og kvöldið líða og hann með hníf"og hann búinn að hóta með honum" Við tókum ákvörðun um að tala við barnaverndarnefnd og biðja þær að koma með lögreglu og lögreglan myndi taka af honum hnífinn. Þær samþykktu það og sögðust koma kl.18 með lögreglu með sér. Þá var farið í það að spá í stelpuna, hún var á æfingu og ég talaði við vinafólk okkar og þau fóru og náðu í stelpuna á æfinguna og fóru með hana heim til sín. Því ekki gat hún komið eina ferðina enn heim í svona ástand og lögreglu. Hún er orðin mjög kvíðin og fær martraðir, það veit barnavernd en alltaf þurfum við samt að bíða eftir úrlausn.Við tók enn ein biðin með hnút í maganum, hvernig færi þetta, yrði hann brjálaður eða myndi hann afhenda hnífinn strax.
Það komu tveir fulltrúar barnaverndar og tveir lögreglumenn. Það var talað við strákinn og hann sagðist ekkert kannast við neinn hníf og hvað þá að hann hefði ógnað neinum..!! Hann var beðinn að hugsa málið betur og athuga hvort að hann væri með einhvern hníf. Það var leitað á honum. Hann sagði þá að hann ætti einn ryðgaðan pínulítinn vasahníf. Hann var beðin um að afhenda hann og þá kom í ljós veiðihnífur og hann var alveg brjálaður að þurfa að afhenda hann,hann var líka með exi, hann var mjög ógnandi við barnaverndarfulltrúann og sagði henni að drulla sér út, annars myndi hann drepa hana. Hvað var gert..... Ekkert, hann var búinn að afhenda lögreglu hnífinn og þá var bara allt búið. Lögregla og barnavernd fóru.
Þegar þetta var yfirstaðið fór ég til vinahjónanna og sagði þeim að þetta væri búið en stelpan vildi fá að gista. Þau urðu vitni af lögreglunni, því að það komu víst allavega 3 lögreglubílar og lögreglumennirnir voru margir og voru búnir að umkringja blokkina, allir í þvílíkum hlífðarvestum og talandi í talstöðvar eins og í spennumynd. Sennilega enn minnugir síðasta hnífadegi hjá stráknum..!!
Þegar við fórum að spá í það eftirá, þá fannst okkur alveg ótrúlegt að barnaverndarfulltrúarnir komu með þvílíka lögreglufylgd, hvað fengum við.....EKKERT. Við áttum bara að díla við þetta og ef hann yrði brjálaður, þá áttum við að hringja strax í 112. Hvað er lögreglan lengi á leiðinni, kannski 10.mínútur, ef við værum heppnar. Hvað getur skeð á 10.mín..??
Strákurinn vildi fá að vera úti en þar sem hann var æstur, þá treysti ég mér ekki í það að skikka hann inn. Ég ráðfærði mig við vaktina hjá barnavernd, sagði henni að ég treysti honum illa að vera úti. Hún spurði hvort það væri ekki bara gott fyrir hann að vera úti og fá útrás. ÉG sagði henni að ég hefði áhyggjur af því að hann mundi meiða einhvern, þótt hann væri "vonandi" ekki með hníf. Hún sagði að við yrðum bara að vona það besta. Mér finnst þetta ekki rétt viðhorf hjá BARNAVERNDARfulltrúa..!!
Sem betur fer kom ekkert uppá..!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2011
Eitthvað að gerast....??
Viku seinna var tók sveitaheimilið ákvörðun um taka að sér þetta verkefni. Frábært...!! Mér var sagt að ég gæti sagt stráknum frá því. Hann var mjög kvíðinn fyrir að fara en enn verra fannst honum að þurfa að bíða. Hann var alveg að fara á límingunum, var svo ör og stressaður, hann var upp um allt, uppí gluggakistum og eldhúsbekkjum. Hann fór að eiga erfiðara með svefn og fékk martraðir. Það var tekin ákvörðun að minnka liðsmennina úr 10.tímum á dag í 4. Af hverju, strákurinn var orðinn pirraður á þessu, strákarnir sem sáu um þetta áttu erfiðari með að höndla hann og svo að sjálfsögðu kostaði þetta of mikla peninga.
Nú þurfti barnavernd í okkar sveitafélagi að fá pappíra frá barnavernd í því sveitafélagi sem sveitin var og þeir pappírar þurftu svo að fara til barnaverndarstofu. Það tók 6.daga að fá pappírana..!! Er pósturinn eitthvað búinn að draga saman í kreppunni..?? Þá þurfti barnavernd að skrifa greinagerð með þessum pappírum og það var að sjálfsögðu ekki búið að gera það á meðan verið var að bíða eftir pappírunum... Það tók 3.daga að gera það. Barnaverndarfulltrúinn hringdi í mig og sagði að ég og strákurinn þyrftum að skrifa undir pappírana, því hún þyrfti að senda það með niðrá barnaverndarstofu. Hún vildi að ég kæmi og næði í pappírana og færi með þá heim og léti hann skrifa undir og skrifaði sjálf og svo átti ég að koma strax aftur með pappírana. Ég er orðin svo dofin að ég sagði bara já.... Vinkona mín spurði mig hvaða bull þetta væri... Af hverju ég færi ekki bara með strákinn og við skrifuðum undir hjá barnavernd. Auðvitað var það miklu einfaldara. Ég hringdi og sagði félagsráðgjafanum það. Hún fór alveg í flækju og spurði hvort ég héldi að hann yrði brjálaður hjá sér... Einmitt, hún var hrædd við strákinn "hún vann á skrifstofu með fullt af öðru fólki sem mundi hjálpa henni ef illa færi" en það var ekkert mál að ég væri með hann heima eins og tifandi tímasprengja. Við fórum og strákurinn var bara rólegur en lét hana aðeins heyra það, að hann væri ekki glaður að þurfa að bíða svona og að hún væri allt of lengi að vinna. Ég sá á henni að hún var stressuð. Þá var loksins hægt að senda þessa pappíra til barnaverndarstofu. Þetta var á föstudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2011
Sveitaheimili..??
Ég hélt áfram að hringja til að fá að vita hvernig málið stæði. Svo loksins, það var búið að finna sveitaheimili sem gæti hentað. Þetta fólk er búið að vinna lengi við það að taka að sér börn sem eru erfið. Þeim var sagt frá skráknum og þau voru til í að skoða þetta. Þá fór barnavernd til þeirra, til að taka út fólkið og heimilið og tala meira um strákinn. Þau ætluðu að hugsa málið. Þá tók við bið og ekki var hún auðveld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. febrúar 2011
Aðstoðin
Það fór allt á fullt hjá Vinun að redda mannskap til að vera með strákinn og aðstoða okkur í 10.tíma á dag. Strákurinn var nú ekki mjög ánægður að vera með einhvern yfir sér allan daginn en hann var samt aðeins búinn að sjá að hegðunin sem hann var búinn að sýna var ekki alveg í lagi, þannig að hann brjálaðist ekki. Það voru tveir strákar á dag sem unnu á 5.tíma vöktum. Það var mjög skrýtið og ekki auðvelt að hafa einhverja inn á heimilinu, ég ímyndaði mér bara að ég væri með skiptinema:)
Strákarnir skiptust á að fara með hann í rækina,sund og út að hjóla til þess að þreyta hann og hann var aðeins rólegri.
Þetta var ekki auðvelt fyrir strákinn minn, heimilið eða strákana í liðveislunni. Strákurinn tekur fólki ekkert voða vel og annaðhvort er fólkið í lagi eða bara fífl og eitthvað verra. Ef honum líkar ekki við þig, þá færðu sko alveg að heyra það, en sumir voru í náðinni. Þetta gekk bara ágætlega.
Ég hringdi nánast daglega til að athuga hvort það væri búið að finna eitthvað úrræði. Neibb, það var ennþá verið að leita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. febrúar 2011
HNÍFURINN
Hann var í 4.daga hjá pabba sínum og kom mjög hróðugur heim og sýndi okkur hníf sem pabbi hans hafði gefið honum, hann var alveg að springa úr gleði, þetta var nefnilega hnífur sem skaust upp og hann gat haft hann í vasanum... Einmitt......... Mér finnst krakkar almennt ekki eiga að vera með hníf og hvað þá hann sem gat misst stjórn á sér á 1.sek... Við töluðum við strákinn og sögðum honum að að hann yrði að láta okkur fá hnífinn, að við þyrftum að geyma hnífinn fyrir hann. Hann hélt nú ekki..... Pabbi hans gaf honum hann og hann mátti bara alveg vera með hann.
Ég hringdi í pabba hans til að spyrja hvort hann hefði gefið honum hníf "mér fannst það svo skrýtið og ég var eiginlega viss um að hann hefði stolið honum" En nei hann GAF honum hnífinn og fannst bara ekkert að því...
Heilinn fór alveg á yfirsnúning til að finna aðferð til að ná af stráknum hnífnum. Hvaða aðferð mundi virka best núna....? Það fer alltaf eftir því hvernig hann er stemmdur hvaða aðferð virkar..
Ég bað hann að láta mig fá hnífinn og NEI, hann gjörsamlega brjálaðist. Hann gekk um íbúðina og braut allt og skemmdi og rauk svo út. Úff, ég hugsði bara að vonaði að hann myndi ekki brjálast við einhvern úti.
Ég fann hann niðrí geymslu eftir svolitla stund og hann var bara búinn að breiða út ferðabedda og ætlaði bara að búa þar, það sem hann mætti ekki vera með hníf heima hjá okkur.... Einmitt.. Ég reyndi að tala við hann og reyndi að kveikja á skynseminni hjá honum, það rofaði ekki einu sinni á henni. Honum fannst bara EKKERT að því að hann gengi um með hníf í vasanum. Ég sagði honum að þessi hegðun væri ekki í boði. Hann gjörsamlega snappaði og rauk út úr geymslunni, kom svo aftur með hnífinn í hendinni og guð minn góður, ég varð hrædd við hann og læsti mig inn í geymslunni. Strákurinn bara sparkaði í hurðina þar til að hún gaf sig. Þegar hún brotnaði hljóp hann í burtu og ég fór upp í íbúð. Þegar ég kom upp stóð stelpan alveg stjörf og frosin. Hvað var....? Strákurinn tók kjöthnífinn minn úr skúffunni og rauk út. Ég fór út og hann alveg argandi brjálaður fyrir utan blokkina og margir nágrannar komnir út, alveg í sjokki.
Við hringdum á lögregluna til að fá hjálp. Það kom einn lögreglumaður og reyndi að tala við strákinn en hann varð bara reiðari og fór að úthúða lögreglunni og tók svo grjót og fór að grýta hann og lögreglumaðurinn snéri sér undan og talaði í talstöðina og þá komu 10.lögreglumenn á sekúndunni, þá voru þeir í leyni án þess að við vissum. Strákurinn trylltist og hljóp í burtu og þeir skiptu sér og náðu að umkringja hann, þurftu að skella honum í jörðina og handjárna hann. Hann var svo fluttur í fangageymslu lögreglunnar alblóðugur og brjálaður..!!
Þrír lögreglumenn urðu eftir til að taka skýrslu af okkur og tjóninu sem hann olli. Hann braut útidyrahurðina inn í íbúðina, geymsluhurðina okkar, sameignarhurð og bárujárn sem er utaná blokkinni og þá er ég bara að telja upp stóru hlutina.
Ég sagði lögreglunni að ég treysti mér ekki til að taka hann stax heim og það var haft samband við B.U.G.L þar sem lögreglunni fannst ástæða til að leggja drenginn inn "þeim fannst mjög augljóst að þetta væri fárveikur drengur" En NEI ekki að ræða það að hann kæmi þangað inn. Lögreglan hafði samband við stuðla en þar var allt fullt. Það var haft samband við barnaverndarnefnd eins og alltaf í svona málum. ÉG sagði að ég treysti mér ekki til að taka hann heim svona brjálaðann. Barnavernd hringdi og sagði að ég yrði að ná í strákinn, það mætti ekki loka hann inn í fangaklefa. Við heimilisfólkið vorum algjörlega í rúst og treystum okkur ekki til að fá hann heim í þessu ástandi og ég sagði að hún yrði að finna einhverja lausn. Hún sagðist ætla að hafa samband við vakthafandi lækni á B.U.G.L og hafa svo samband. Og hvað, þetta er eins og mafía og lítur út fyrir að vera samantekin ráð, hann sagði að hann mætti ekki taka hann inn.... Einmitt...!! Ég sagði að hún yrði að finna eitthvað, því við yrðum að fá að jafna okkur.
Hún hafði svo samband og fann neyðarvistun sem barnavernd er með, sem er bara venjulegt heimili með hjónum sem vinna við þetta og karlmaðurinn bæði fyrrverandi lögreglumaður og starfsmaður á stuðlum. Hún sagði svo við mig að barnaverndarfulltrúinn sem sæi um okkar mál hefði svo samband við mig strax morguninn eftir.
Það var hringt eftir hádegi og mér sagt að ég þyrfti að sækja strákinn, ég var ennþá í rúst, svefnlaus og grátandi, bæði af áhyggjum, hræðslu og samviskubiti. Ég sagðist geta sótt hann ef að ég fengi aðstoð inn á heimilið frá hádegi til kl.22. Nei það er ekki hægt sagði hún. Ok þá get ég ekki tekið hann heim. Hún æsti sig og sagði að ég yrði að vera samstarfsfús og ég brjálaðist og spurði hvort ég væri ekki búin að vera það..... Jú sagði hún, en ekki núna...! Ég meina halló, barnaverndarstofa var að finna úrræði fyrir strákinn og á meðan átti barnavernd að hjálpa og þjónusta okkur. Þarna voru komnar rúmar 12.vikur í veikindum og rúmar 8.vikur í úrræðaleysi og ástandið á heimilinu fór bara versnandi. Og hún dirfðist til að segja að ég yrði að vera samstarfsfús..!!!! Ég sagði að annaðhvort fengi ég þessa hjálp eða ég tæki hann ekki heim. Hún ætlaði að athuga hvort hann gæti verið annan sólarhring. Daginn eftir hringdi hún eins og rispuð plata og endurtók rullu gærdagsins og ég var bara líka eins og rispuð plata og sagði það sama. Og þá sagði hún ok ég skal hafa samband við vinun og samþykkja aðstoðina. Ég þakkaði bara fyrir.
Mér finnst ekki í lagi að ég hafi þurft að neita að taka strákinn heim af því að þetta snýst allt um peninga. Hvað kostar það ríkið ef hann fer í fíkniefni og innbrot? Svo færi hann kannski í meðferð og svo þyrfti hann kannski að sitja af sér dóm og færi í fangelsi. Eftir það liði honum kannski illa og þyrfti að leggjast inn á geðdeild, kannski myndi hann leiðast aftur í fíkniefni og svo færi hann í meiri innbrot og yrði kannski handrukkari og mundi koma fleiri manns á spítala. Við fjölskyldan yrðum kannski kvíðasjúklingar og þyrftum að vera á lyfjum og kannski vera hjá geðlæknum eða leggjast inn á geðdeild. Systir hans er bara 11.ára og gæti verið næstu tugi ára að jafna sig, því það er ekkert verra en að horfa á og upplifa andlegt og líkamlegt ofbeldi, fyrir alla, hvað þá ómótuð börn. Hve há yrði talan þá..?? En það er auðvitað ekkert vera að spá í að byrgja brunninn og vinna smá forvarnir. Nei það er stanslaust verið að spara og vonast eftir að kannski lendir hann ekki í neinu af þessu og verður ok, eða kannski á honum eftir að líða ver og endar kannski líf sitt..... Já þá sparast aldeilis peningarnir..!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 2. febrúar 2011
Jólin....
Jólin hafa alltaf verið erfiður tími fyrir strákinn og við heimilisfólkið vorum komin með hnút í magann af stressi yfir því hvernig hann mundi vera...
Það var samþykkt að við fengjum stuðning inn á heimilið í formi liðsmanns fyrir strákinn í 4.tíma á dag ALLA daga. Það var mikill léttir. Vinun sá um að redda liðsmanninum og hann kom líka yfir jóladagana:)
Strákurinn gat þá farið út og fengið smá útrás og fyrir vikið varð hann aðeins rólegri. Strákurinn valdi að fara með liðsmanninum út, þegar jólaboðin væru, því að honum líður ekki vel í boðum og það gekk eftir.
Jólin urðu miklu auðveldari en ég bjóst við, þó að það kæmu alveg árekstrar. Ég var búin að búa mig undir stríðsástand.
Strákurinn hafði samband við pabba sinn og hann bauð honum að koma til sín. Hmmm...... Hann var ekki búinn að fara til hans í rúm 3.ár. Ég vissi ekki hvort það væri gott fyrir hann að fara, þar sem ástandið á stráknum var ekki gott og ég útskýrði vel fyrir pabba hans og konunni hans hvernig allt var búið að vera. Það var svo ákveðið að hann færi og ég varð voða fegin að losna aðeins við strákinn og áreitið sem fylgdi honum og hinu heimilisfólkinu varð líka mjög létt. Ég fékk ekki einu sinni samviskubit yfir því að vera laus við hann í smá tíma..!! Ég held að það hafi verið í 1.skipti sem samviskubitið kom ekki og ég held að það hafi bara verið gott fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Tenglar
Mínir tenglar
- MODY Önnur tegund sykursýki
- Dropinn Styrktarfélag barna með sykursýki
- Barnageð Félag foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga
- Umsjónarfélag einhverfra
- Tourette samtökin á íslandi
- Greiningarstöð ríkisins
- Vinun Fyrirtæki sem hjálpar:)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar